Uxinn vaknar

Þann 29. júní árið 1995 birtist ítarleg kynning á útihátíð sem fram færi daganna 3.-6. ágúst sama ár á Kirkjubæjarklaustri, nánar tilteið í landi Geirlands og Skaftárhrepps, um kílómetra frá sjálfum Kirkjubæjarklaustri. Svæðið er í mynni víðs dals og umkringt klettabeltum. Einnig var þar að finna myndarlegan foss og stórt tún. Þetta var vettvangur fyrstu alþjóðlegu tónlistarhátíðarinnar sem haldin var á Íslandi: Uxi. Fyrstu hljómsveitarnöfnin sem kynnt voru fyrir fjölmiðlum voru gamlir Íslandsvinir: Underworld, The Prodigy, Drumclub og Innersphere. Íslenska poppstjarnan Björk átti að opna hátíðina. Nýtt og stórt svið sem Reykjavíkurborg hafði fjárfest í var leigt til samkundarinnar og einnig yrði þar ein víðamesta tískusýning Íslandssögunnar. Ljóst var frá fyrsta degi að aðstandendur hátíðarinnar ætluðu sér að endurskrifa sögu tónleikahalds hér á landi.

Breska tímaritið Observer gerði sér leið til landsins til þess að kynn sér undirbúning hátíðarinnar og voru þeir afar hrifnir. Fleiri erlend tímarit fóru að sýna þessu áhuga. Breska útgáfufyrirtækið Volume gerði samning um eignarrétt á upptökum frá tónleikunum. Hugmynd var á kreiki um að gefa út geisladisk ásamt tvö hundruð blaðsíðna upplýsingabók um náttúru og menning þjóðarinnar. Geisladiskurinn átti að innihalda tónleikaupptökur af erlendum sem og íslenskum böndum.

Samkvæmt skipuleggjendum var þetta ekki útihátíð, þó svo að hún yrði á sama tíma og verslunarmannahelgin ætti sér stað. Þetta var menningarhátíð. Hér yrðu samankomin mörg af þeim heitari nöfnum í breskri og þýskri jaðartónlist, ásamt fjölbreytilegu úrvali af íslenskum hljómsveitum. “Aðdáendur Stjórnarinnar verða að fara annað og er það vel. Vinir Vors og Blóma verða einnig bannaðir á svæðinu”, stóð á heimasíðu hátíðarinnar og settu þar með tóninn um að hér er ekki ætlað að vera með skemmtun fyrir hjörðina.

Heimamenn voru tilbúnir að taka á móti þeim aragrúa af gestum sem skipuleggjendur bjuggust við, en á árinu á undan hafði Hótel Edda t.a.m. reist nýja hótelbyggingu ofan á það sem fyrir var. Um var að ræða 21 ný tveggja manna gistiherbergi – og á öllum herbergjunum var að finna forlátan síma, sjónvarp og hárþurrku. Samtals voru því þar að finna 57 tveggja manna herbergi. Einnig var þar að finna nýja gestamóttöku og veitingasal fyrir 150 manns. Mikill uppgangur var á Kirkjubæjarklaustri á þessum tíma, þar sem á svipuðum tíma var vígt nýtt hjúkrunarheimili. Á meðan hátíðinni stóð urðu þó sumir tónlistarmenn, svo sem meðlimir þýsku sveitarinnar Atari Teenage, að sofa í tjöldum þar sem öll hótel og sumarhús á svæðinu urðu snemma uppbókuð.

Verð fyrir heimamenn var 7600 krónur og var sett 16 ára aldurstakmark, nema í fylgd með fullorðnum. Með fyrstu þrjú þúsund miðunum fylgdi geisladiskurinn Journey To the Top of the World, sem innihélt lög með sumum af þeim sveitum sem þar komu fram. Áfengisbann var auglýst á tónleikasvæðinu. Fyrir erlenda gesti var hægt að kaupa hópferðir til landsins fyrir einungis 35.000 isk á mann, en innifalið var flug, rútuferð og aðgangsmiði.

Fljótlega fór að bera á orðrómu um að þetta yrði lítið annað en sukkhátíð, en forsvarsmenn hátíðarinnar gerðu sitt besta til þess að kveða niður slíkan orðróm. Forsvarsmenn átakasins Stöðvum Unglingadrykkju sendu frá sér bréf með yfirskriftinni “Passið ykkur á Eyjum og Klaustri” og var þar skorað á foreldra unglinga að senda þá ekki eftirlitslausa á þær hátíðir. “Nokkrar af þeim erlendu hljómsveitum sem fram koma á Klaustri eru taldar ýta undir dýrkun á eiturefnum, sérstaklega alsælu. Hætt er við því að þar geti skapast andrúmsloft vinveitt vímuefnaneyslu.”

Aðstandendur hátíðarinnar lýstu bréfi átaksins sem “sorglegu viðhorfi til æsku landsins.” Ákveðnar hugmyndir voru um svokallaða X-kynslóð, nafngift úr samnefndri bók eftir Douglas Coupland, að ungviði samtímans uppgötvuðu tilgangsleysi nútímans og skort á gildismati. Tónlistin sem sameinaði X-kynslóðina var fyrst og fremst danstónlist, svokölluð reiftónlist (e. Rave), sem byggist á stöðugum hrynjanda, blönduðum hljóðum úr hljóðfærum og tölvum og yfirleitt án söngs. Í bandaríska tímaritinu Rolling Stone var menningu X-kynslóðarinnar lýst sem ruslakistu; ófrumlegu samsulli af tónlist, list og tísku áranna á undan.

Í júlí, einum mánuði fyrir upphaf hátíðarinnar, sendi ríkisskattstjóri frá sér úrskurð um að hátíðin skyldi greiða 24,5% virðisaukaskatt af seldum miðum. Það vakti upp umræðu um sanngirni greiðslu virðisaukaskatts á slíkum viðburðum, þar sem ekki voru slíkir skattar lagðir á djasstónleika eða klassíska tónleika. Um var að ræða grófa mismunum á tónlistarformum.

Fleiri urðu vandræðin við undirbúning hátíðarinnar þar sem lögreglan lagði hald á 100 stykki af fölsuðum aðgöngumiðum. Miðarnir voru ljósritaðir og komið var með miðana í prentsmiðju til ritgötunar og vöknuðu þar með grunsemdir meðal starfsmanna prentsmiðjunnar.

Kristinn Sæmundsson, einnig þekktur sem Kiddi Kanína, var einn af forsvarsmönnum hátíðarinnar og óopinber talsmaður hennar. Hátíðin var í raun hugarfóstur hans. Hann rak hljómplötuverslunina Hljómalind í Austurstræti 8 og hafði á þessm tíma getið sér góðan orðstír fyrir tónleikahald. Hann hafði t.a.m. flutt inn bresku sveitinar Freaky Realistic og verið einn af aðstandendum Rokkskógarátaksins. Hann var sjálfmenntaður Reykjavíkingur með eldheita ástríðu fyrir tónlist. Hann var einnig einn af aðstandendum Extra blaðsins, sem var málgagn fyrir ungt fólk og leiðarvísir að betri tónlistarsmekk fyrir ungviði landsins. Árið 2003 lokaði hann Hljómalind og fann sér nýjan starfsvettvang. Hann hafði unnið óeigingjarnt starf í heilan áratug í að kynna landi og þjóð fyrir því helsta sem átti sér stað á meginlandinu.

Verslunarmannahelgin var skollin á. Spáin var ágæt: hægviðri, súld og 15 stiga hiti. Búist var við 10.000 manns, en einungis 4.000-5.000 manns létu sjá sig. Meðlimir í ungmennafélagið Ármann á Kirkjubæjarklaustri lögðu mikla vinnu í að undirbúa komu mannfköldanns og áttu mikinn þátt í að koma upp hljómsveitarsviðið. Óvissa ríkti um hvort sumar hljómsveitirnar myndu koma. Sögusagnir voru um að stórsveitin KLF kæmi þar fram, orðrómur var á kreiki að kröfur sveitarinnar hafi verið ógerlegar, þ.á.m. krafa um að flytja inn 13 tonna Saracen bryndreka frá árin 1952. Þess má geta að James Cauty, meðlimur KLF, á í dag tvo slíka bryndreka.

Gestir hátíðarinnar höfðu tök á að reyna sig við teygjuskot, afbrigði af teygjustökki nema að skotið er þátttakandanum af jörðu niðri með hjálp krækju, spennu og teygju. Kris Needs, meðlimur Delta Lady og Secret Knowledge, spilaði tónlist undir tískusýningu og götuleikhópur var með gjörninga víðsvegar á tónleikasvæðinu. Breska sveitin Chapterhouse spilaðu sínu lokatónleika á Uxa, en sú sveit lagði upp lauparnar skömmu síðar. Meðlimir Sonic Youth flæktust um hátíðarsvæðið af öllum óafvitandi – og var það ekki fyrr en vel eftir að hátíðinni lauk að vitað væri um veru þeirra þar.

Björk kom til landsins með fylgdarlið sitt örfáum klukkutímum eftir að hún hafði komið fram í Detroit. Hún var flutt, ásamt Aphex Twin, til Kirkjubæjarklausturs með leiguflugvél og var komin þar um kvöldmatarleytið. Björk steig á svið korter fyrir miðnætti og spilaði einungis fimm lög. Einhverjir urðu ósáttir við hversu stuttir tónleikarnir voru, en ef til vill hefur mikil þreyta í kjölfar ferðalagsins átt sinn þátt. Svo virðist einnig að allt hafi bilað sem bilað gæti, en tölva sem notast var við skapaði smá glundroða í settinu hennar. Björk og The Prodigy voru þau einu sem tókst að fylla afgirta tónleiksvæðið, en þýska pönkteknósveitin Atari Teenage Rio komst ansi nálægt því. Snemma morguninn eftir hélt hún af stað til Toronto þar sem hún söng síðar um kvöldið fyrir fullu húsi.

Áður en Björk steig á svið spilaði raftónlistarmaðurinn Aphex Twin. Flestir biðu í ofvæni eftir íslensku drottningunni og vissu ekki hvað væri í gangi. Sumir töldu að hljóðkerfið væri bilað – og að Aphex Twin væri einfaldlega tæknimaður á vegum Bjarkar. Bjöguð pólkatónlist með tilheyrandi óhljóðum, eins og honum var vís, ásamt vafasömu andlegu ástandi hans fór ekki vel í mannskapinn og ríki hálfgerð ringulreið á meðal áhorfenda þangað til Björk steig á svið.

Þegar Björk hafði lokið sínu dagsverki steig á svið naumhyggjuvæna tæknósveitin Bandulu. Margir furðuðu sig yfir því að sveitin fengi eitt besta tímapláss hátíðarinnar, en orðrómur var á kreiki að umboðsmaður sveitarinnar hafði náð að tuða í skipuleggjendum hátíðarinnar að sveit hans ætti að spila á eftir Björk – og fékk hann sínu fram. Það sem gerðist þó var að svæðið nær tæmdist þegar sveitin hóf tónleika sína, þó svo gerður var góður rómur af framkomu og tónlist þeirra.

Hljómsveitin The Prodigy var afar vinsæl meðal íslenskra tónlistarunnenda, en breiðskífa þeirra Music for the Jilted Generation hafði komið út árinu á undan. Upp var fótur og fit þegar sveitin sat föst í tollinum á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins, en tollverðir grunuðu sveitinar um græsku. Starfsmenn á vegum hátíðarinnar þrefuðu við tollverði í hartnær tvo klukkutíma áður en að sveitin fékk að halda leið sinni áfram, en með þeim skilyrðum að þeir yrðu að hafa sig af landi brott um leið og tónleikarnir voru búnir. Meðlimir sveitarinnar voru óánægðir með þessar móttökur og neituðu fyrst um sinn að koma fram. Eftir nokkrar samningsviðræður létu þeir til leiðast og komu fram við mikla hrifningu tónleikagesta.

Þrátt fyrir almennt jákvæða umfjöllun um hátíðina birti framkvæmdastjóri Stöðvum Unglingadrykkju harðorða grein um hátíðina að henni lokinni. Stöð 2 hafði sýnt myndbrot af tónleikagesti þiggja munnmök og einn erlendur fjölmiðill gaf einu kvöldinu nafnagiftina “Samfaranóttin mikla”. Taldi hann að áðurnefnda gagnrýni á hátíðina hafi átt rétt á sér og að umfjöllun Stöðvar 2 hafi lítið annað en styrkt skoðun hans.

Lítið var um pústra og var það helst sólbruni sem þarfnaðist aðhlynningar í sjúkratjaldi hátíðarinnar. Ölvan var nokkuð áberandi, þá sér í lagi landadrykkja. Fyrir hátíðina voru helsta áhyggjurnar um eiturlyfjaneyslu á svæðinu, en lögreglan upplýsti 30 mál af því tagi – og flest snérust þau um smáskammta til einkaneyslu. Einn þekktur breskur tónlistarmaður var tekinn baksviðs með hassmola undir höndunum. Á þriðja hundruð lítra af landa var hellt niður af lögreglunni. Einn heimamaður var handtekinn fyrir sölu á bleikjuðu hveiti, en maðurinn hafði náð að blekkja nokkra gesti um að hveitið væri í raun kristaltært kókaín. Þrátt fyrir þessa upptalningu var lögreglan meira en ánægð með hegðun hátíðargesta.

Aðstandendur hátíðarinnar voru ánægðir með hvernig tókst til og strax að hátíðinni lokinni var rætt um að endurtaka leikinn að ári. Það var þó ekki gert. Ljóst var að skaðinn var skeður. Hátíðin var dæmd fyrirfram sem “dóphátíð”, þrátt fyrir verðuga baráttu aðstandenda gegn þeim stimpli. Þess má geta að hátíð þessi var sú eina þetta árið sem óskaði eftir því að Stígamót yfrði á staðnum, en tveir starfsmenn á þeirra vegum voru til taks á meðan hátíðinni stóð.

Hátíðinni tókst upphaflega takmarki sínu: að kynna land og þjóð – þó ef til vill hefur sú landkynning ekki verið öllum að skapi. Í kringum 50 erlendir blaðamenn voru á hátíðinni og fékk hún pláss í fjölmörgum erlendum miðlum. Kvikmyndafyrirtækið Kelvin var stofnað mánuði fyrir hátíðina og var fyrsta verkefnið að gera heimildarmynd um hátíðina. Fljótlega lágu samningar fyrir um að sýna heimildarmyndina á RÚV og lengi vel voru umræður um að MTV sjónvarpsstöðin myndi sýna hana einnig. Heimildarmyndin var sýnd í tveimur hlutum í október sama ár á RÚV. Ekkert varð þó af fyrirhugaðri útgáfu á upptökum frá hátíðinni á vegum Volume.

Þátturinn Party Zone á MTV tileinkaði heilum þætti hátíðinni. Skemmst er að minnast áhugaverð viðtals við Bobby Gillespie, forsprakka Primal Scream, þar sem þáttastjórnandinn bar ekki kennsl á aðra meðlimi sveitarinnar og taldi þá vera innfædda furðufugla sem vildu endilega vera í mynd.

Fljótlega eftir að hátíðinni lauk fór að bera á heimsóknir frægra popplistamanna, þ.á.m. Blur og David Bowie – og tengja margir það við landkynninguna í kjölfar hátíðarinnar.

Mikil umræða var um öfgaennda eyðslu skipuleggjenda við hátíðarhöldin, en t.a.m var eytt 1.7 milljón við að borga undir einkaþotu fram og til baka handa Björk og Aphex Twin, sem bæði höfðu verið að koma fram í Bandaríkjunum deginum á undan. Óhætt er að fullyrða að hátíðin hafi komið illa fjárhagslega út úr þessu ævintýri. Undir lok árs 1996 var Uxi Ehf, fyrirtækið á bakvið hátíðina, lýst galdþrota.

Þetta var fyrsta metnaðarfulla tónlistarhátíð á alþjóðlegan mælikvarða hérlendis. Tímasetningin var fullkomin, þar sem landið var smám saman að komast á kortið. Hátíðin var barn síns tíma – en bar ávöxt sem erfitt verður að leggja fjárhagslegan ágóða á. Hún gaf tóninn fyrir það sem koma skal.

Greinin á ensku fyrir Reykjavík Grapevine – birt 06.11.2014