Röntgenvínyll

Eftir misheppnaða ferð til GUM, ríkisreknu stórversluninni þar sem hinn reglulegi plötusali starfaði, var förinni heitið að Dostoevskaya lestarstöðinni. Nálægt inngangnum stendur sölumaður í þykkum frakka, sem er ekki óalgeng sjón á köldum febrúarmánuði í Leningrad (nú Sankti Pétursborg). “Áttu plötu með Little Richard?” spyr Stanislav, ungur tónlistaráhugamaður, varfærnislega. Sölumaðurinn horfir framhjá honum, hugsar sig um og biður hann um að bíða eitt augnablik. Sölumaðurinn fer inn í húsasund, tekur upp tússpenna og skrifar “Little Richard” á eina plötuna sem hann hafði meðferðis undir þykka frakkanum. Platan kostaði Stanislav næstum mánaðarlaun. Tónlistin var yfirfull af skruðningum og þetta var alls ekki Little Richard á plötunni. En hvað vissi Stanislav um það? Hann hafði nefnilega aldrei heyrt í honum áður. Áhugaverðasta var að platan sjálf var röntgenmynd – mynd af brákaðri hönd, líklegast eftir slæma byltu eftir kvöldgöngu á Nevski Prospekt breiðgötunni.

Árið 1946 kom pólskur vínylgerðarmaður til Leningrad. Hann opnaði fyrirtæki þar sem hægt var að taka upp nokkur orð eða hljóðbúta á vínyl og búa þannig til gjöf til vini og vandamanna. Þetta var vinsæl gjöf, en alls ekki ódýr. Í sínum frítíma tók hann upp á því að búa til ólögleg eintök af vínylplötum til að selja. Þetta var engin fjöldaframleiðsla enda einungis hægt að taka plöturnar upp í rauntíma og mikill skortur var á efnum til að framleiða þær. Vínylframleiðslutækið sjálft vakti mikinn áhuga – og braskarar hófu að endurgera tækið. Vandamálið var fyrst og fremst að útvega efnum til þess að framleiða vínylinn og var það stundum bæði dýrt og illfáanlegt.

Sjúkrahús voru yfirleitt með mikið magn af röntgenmyndum, sem í lok árs voru tekin saman og eyðilögð þar sem mikil eldhætta stafaði af þeim. Spítalar gáfu stundum röntgenmyndir til þess eins að losna við þær. Efnið í röntgenmyndunum var mjúkt, en þó var mögulegt að skera einfaldar brautir í láréttu plani sem nál af plötuspilara titrar í. Tveir tónlistaráhugamenn, Ruslan Bugaslovski og Boris Taigin, hófu tilraunir með þetta, en fljótlega varð þetta vinsæl söluvara í undirheimum Sovétríkjanna. Röntgenvínylplötur eða roentgenizdat varð að veruleika.

Í Sovétríkjunum var einungis hægt að hlusta á þá tónlist sem ríkið leyfði. Í útvarpinu var gjarnan spiluð rússnesk tónlist – og það var ekki sama hvaða rússnesk tónlist það var. Lög sem innihéldu boðskap um ofbeldi eða kynlíf fengu ekki að hljóma. Blatnaya (glæpamanna-tónlist) var afar vinsæl á meðal þeirra sem enduðu í gúlaginu. Þetta var tónlist sem rómantíseraði glæpalífið – og stjórnvöld voru mjög í nöp við vinsældir hennar. Notkun tungumálsins vakti einnig áhyggjur, en mikið var notast við tökuorð úr öðrum tungumálum – t.a.m. jiddísku og úkraínsku. Fljótlega eftir dauða Stalin fengu margir að snúa aftur til baka úr gúlaginu og fljótlega hófst mikil eftirspurn eftir Blatnaya-tónlist á föstu formi.

Röntgenplöturnar voru mestmegnis Blatnaya-tónlist, sígaunatónlist og jafnvel vestræn tónlist – þó af og til leyndust klassísk rússnesk tónlist þar einnig. Hljóðgæðin voru ekki til fyrirmyndar, en gáfu þó innsýn yfir í hinn forboðna heim. Oft var sagt að það hljómaði eins og að spila vínyl í sandkassa.

Það var yfirleitt ástin fyrir tónlistinni sem dreif plötuframleiðendurnar áfram. Þeir sem framleiddu plöturnar voru oftast nær ekki þeir sömu og seldu þetta. Þeir fundu sér dreifingaraðila – og dreifingaraðilarnar klæddust oft þykkum jökkum, en undir góðum jakka leyndust oft 40-50 vínylplötur þar sem plöturnar voru mjúkar og í raun fyrirferðalitlar. Það var raunveruleg hætta við að selja slíkar plötur. Fangelsisvist fyrir sölu á ólöglegum hljómplötum var frá tveimur til fimm árum. Yfirvöld voru í nöp við þessar útgáfur. Þeir hrósuðu því að fólk bjó sér til nýjar framleiðsluvélar, en ósátt við að fólk var að græða svo mikið á þeim.

Hverjir voru það sem freistuðust til þess að fjárfesta í þessum plötum? Í Sovéttímanum var ákveðin hreyfing ungmenna sem oft var nefnd Stilyagi. Þau klæddust vestrænum fötum, sem fengin voru í gegnum verslun við útlendinga (á rússnesku kallaðist það fartsovka og þótti alvarlegur glæpur) og hlustuðu á vestræna tónlist. Þessi hópur var mikilvægur neytendahópur.

Röntgenvínylplötur voru vinsælar þangað ársins 1966 þegar segulbandsspólur (e. Reel tapes) tóku við. Spólurnar hljómuðu mun betur – og framleiðslukostnaðurinn var mun minni. Röntgenvínylplöturnar voru sýnishorn af því hvernig neyðin kennir naktri konu að spinna. Fólk notaði það sem var fyrir hendi til þess að dreifa tónlist – og var viljugt til þess að taka mikla áhættu til þess.

Boris Taigin og Ruslan Bugaslovski, sem af mörgum eru taldir upphafsmenn röntgenvínylsbransans, voru meðlimir hóps ólöglegra framleiðenda sem kölluðu sig Gullnu Hundana. Þetta gekk ekki snuðrulaust fyrir þá – því þeir voru t.a.m. handteknir árið 1950 fyrir ólöglega framleiðslu og sölu. Fyrir þá glæpi voru þeir sendir í Gúlagið og voru þar til ársins 1953 þegar Stalin lést. Þegar þeir snéru til baka, þá héldu þeir áfram fyrri iðju. Boris var ekki einungis að framleiða vínylplötur, því hann gerði einnig ólöglegar dreifingar á vestrænum ljóðabókum. Hann batt þær saman og gaf út í afar takmörkuðu upplagi, oftast um tíu eintök. Sala á vínylplötum var hættuleg – því það var ekki einungis hætta á að lenda í hrömmum stjórnvalda, heldur líka í hrömmur annarra harðsvíraðri glæpamönnum.  

Nú í dag eru enn fáanlegar röntgenvínilplötur á Ebay og í gegnum öðrum leiðum – og hafa safnarar smám saman byrjað að sýna þessu áhuga á nýjan leik. Ein af helstu ástæðum fyrir því að fólk hóf að gefa þessu gaum er bók Stephens Coates sem heitir X-Ray Audio: The Strange Story of Soviet Music on the Bone og kom út árið 2015. Stephen var stofnandi og aðalsöngvari hljómsveitarinnar The Real Tuesday Weld. Á ferðalagi í St. Pétursborg rakst hann á röntgenvínylplötu á flóamarkaði og spurði félaga sína hvort þeir könnuðust eitthvað við þetta, en enginn vissi neitt. Hann tók plötuna með sér heim, setti hana undir nálina á plötuspilaranum sínum og þar kom í ljós að um var að ræða Rock Around the Clock með Bill Hayley. Áhuginn kviknaði og leitin hófst – og er sú leit er enn í gangi.

X-Ray Audio verkefnið