Tónn Framtíðarinnar

Við erum stödd í Hlöðunni á skemmtistaðnum Óðal við Austurvöll. Það er langt komið fram í sumarið, en samt er ansi kuldalegt um að litast í Reykjavík. Það er lítið að gera fyrir tónlistaráhangendur á þessu þriðjudagskvöldi fyrir utan að kíkja á óþekkta sveit stíga á stokk á einum af helsta skemmtistað bæjarins. Sveitin kemur sér fyrir á sviðið og stillir upp hljóðgervlum og trommuheila. „Hvar er trommarinn ykkar?“ heyrist kallað úr fjöldanum. Söngvari sveitarinnar kynnir sig og sveitina. Hún heitir Sonus Futurae. Tónn framtíðarinnar á latínu.

Hljómsveitin Sonus Futurae er ein af þeim sveitum sem margir telja forsprakka poppraftónlistar á Íslandi – þegar raftónlistin braut sér leið inn á heimili almennings. Sveitin varð til um jólin árið 1981 og var hún skipuð þremur ungum námsmönnum úr Menntaskólanum í Reykjavík: Jóni Gústafssyni, Kristni R. Þórissyni og Þorsteini Jónssyni. Hljóðfæraskipunin var sérstök að því leyti að hér var komin hljómsveit sem hafði á að skipa mjög óhefðbundnum hljóðfærum. Notast var við hljóðgervla og trommuheila – og þótti slíkt nýlunda á þessum tíma.

Í viðtali við Helgarpóstinn árið 1982 segja meðlimir sveitarinnar: „Við erum með futurisma […] Við vinnum og útsetjum lögin algjörlega inn á tape. Þetta er eins og raunveruleg stúdíóvinna, algjör andstæða bílskúrsbanda […] Fólk veit ekki alveg hvernig það á að taka okkur því að það er búið að innprenta að allt eigi að líta út eins og Bubbi og Egó. En það sýnir sig að fúturismi er það sem koma skal.“ 

„Nafngiftin, Sonus Futurae, er latnesk að uppruna og útleggst á íslensku „Hljómur framtíðarinnar“. E.t.v. ekki að undra þótt þeir félagar sæki nafnið í latínuna þar sem tveir þeirra eru við nám í máladeild skólans. Reyndar komst sá orðrómur á kreik, aö Sonus Futurae væri ættuð úr Hafnarfirðinum, en það reyndist á misskilningi byggt. Halldór Árni (sem eitt sinn var kallaður Dóri feiti) úr Hafnarfirði var þeim innan handar þegar fyrstu skrefin á framabrautinni voru stigin og töldu þeir félagar að þannig hefði Hafnarfjörður blandast inn í málin.“[1]

Útgefandi sveitarinnar var staðsettur í Los Angeles og fannst tilvalið að hið tæknivædda sveit fengi að gera tónlistarmyndband. Það var undantekning á reglunni á þeim tíma. Líklegast er þetta ein af fyrstu íslensku tónlistarmyndböndum á þeim tíma. Ýmsir tæknilegir gallar voru á upptökunni, en þrátt fyrir það fékk myndbandið frumsýningu í sjónvarpsþættinum Skonrokk í desember 1982 – skömmu fyrir fyrstu útgáfu sveitarinnar. Tónlistarmyndbandið var við lagið “Myndbandið” – og virðist nú vera týnt og tröllum gefið.

Fyrsta breiðskífa sveitarinnar leit dagsins ljós undir loks ársins 1982. Skífan hét Þeir sem sletta skyrinu og var um að ræða sex lög á 12 tommu 45 snúninga vínilplötu. Gagnrýnendur voru flestir sammála um að sveitin væri afar efnileg og velkomin viðbót við íslensku tónlistarflóruna. Fljótlega eftir útgáfuna komu fram brestir í sveitina, þar sem Jón Gústafsson sagði skilið við hana og hóf sólóferil sinn. Undir lok ársins 1983 gaf hann út breiðskífuna Frjáls – og hélt sér við tölvuhljóðfærin, en notaði þau bland við lifandi hljóðfæri. Hann, ásamt nokkrum öðrum, settu upp hljóðverið Mjöt, sem var starfrækt í gömlum kolakjallara við Klapparstíg 28.[2]

Staðan á íslenskri danstónlist árið 1983 var fremur erfið. Hljóðgervlar voru ekki á allra færi – og tónlistin þótti ekki aðgengileg. „Íslenskt tölvupopp, dansmúsík og diskópönk er ekki burðugt. Hér skortir algjörlega það líf og fjör sem er í kringum þessa tónlist í Bretlandi, til dæmis. Lítið er lagt upp úr klæðaburði og engin tískubylgja hefur myndast kringum nýrómantíkina. Ýmsar hljómsveitir hafa lagt út á þessi mið hér á landi og má þar nefna Sonus Futurae, Mogo Homo og fleiri. Mogo Homo er mjög efnileg hljómsveit sem sýnist hafa mikla möguleika og Sonus á örugglega eftir að gera mjög góða hluti. Við eigum eina hljómsveit sem komist hefur langt á dansmarkaðnum í Englandi, Mezzoforte, en hér heima hefur hún alltaf verið utangarðs. Sennilega stafar það af því að hún hefur slappa ímynd. Mezzoforte þyrfti að hafa söngvara.“[3]

Sonus Futurae varð svo fyrir barðinu á misyndismönnum í marsmánuði árið 1986 þegar afrakstur sveiturinnar síðustu tvö árin höfðu verið teknar ófrjálsri hendi í Valhúsaskóla. Tölvudiskarnir sem höfðu að geyma verk sveitarinnar fundust aldrei og tveggja ára vinna horfin. Sveitin lagði fljótlega eftir upp lauparnar, en eftir útgáfu breiðskífunnar hafði hún lítið komið fram. Ástæðan var að mörgu leyti vegna þess að erfiðlega gekk að samræma tónsköpun sveitarinnar við lifandi tónleikaflutning. Sveitin var fyrst og fremst hljóðversband. Með tilkomu Sonus Futurae kom bjartsýni í garð raftónlistar á Íslandi. Fjölmargar sveitir fylgdu í kjölfarið og margar hverjar eiga álíka lof skilið og sú sveit sem fjallað er hér um.

Það voru tveir mjög ólíkir hópar að vinna með rafhljóðfæri á áttunda áratuginum. Það voru annars vegar poppararnir og hins vegar pönkararnir.

Poppararnir voru oftast nær afar lærðir tónlistarmenn og notuðu rafhljóðfæri sem velkomna viðbót við popptónlistina. Góð dæmi um slíkt eru Herbert Guðmundsson, Jóhann Helgason og Björgvin Halldórsson. Ekki er hægt að segja að mikið hafi verið um tilraunastarfsemi, heldur notast við nokkuð viðurkenndar aðferðir – t.a.m. bassalínur í anda Giorgio Moroder og notkun vókódera sem bakraddir. 

Pönkararnir voru oft með öðruvísi nálgun á rafhljóðfærin. Í stað þess að færa rafhljóð inn í fyrirfram ákveðna formúlu – fékk rafhljóðfærið að njóta sín til hins ítrasta og unnið í kringum það. Rafhljóðin voru meira í forgrunninum.

Raftónlistin er ekki stundarfyrirbæri. Smám saman urðu hljóðgervlarnir ódýrari og aðgengilegri. “Þessi bóla springur ekki strax, mjög margar hljómsveitir eru byrjaðar að nota þessi tæki í einhverjum mæli enda eru möguleikarnir sem þau bjóða upp á óendanlegir, hvað varðar hljóð og samsetningar og það mun líða mjög langur tími þar til búið verður að nota alla þá möguleika til hlítar auk þess sem stöðugt er verið að finna upp eitthvað nýtt á þessum vettvangi.”[4]


[4] „Þetta var nýtt og forvitnilegt“. Tíminn. 5. desember 1982. Bls. 31.


[3] „Hvað varð af fjörinu?“ Vikan. 21. júlí 1983. Bls. 41. 


[2] „Hljóðverið Mjöt hefur starfsemi“. Morgunblaðið. 20. nóvember 1983. Bls. 84.


[1] „Plata Sonus Futurae væntanleg á næstunni“. Morgunblaðið. 31. október 1982. Bls. 47.