Tilraunaútsending

Mánudagur 6. mars 1995. Það er mikill kuldi á höfuðborgarsvæðinu – og hefur verið undanfarnar vikur. Kennaraverkfall skekur samfélagið og fátt sem benti til að lausn væri í sjónmáli. Um fimmtándi hver Visareikningur er í vanskilum og gengið á bandarískum dollara er rétt yfir 65 krónur. Klukkan er 21:25 og annar þáttur bandaríska myndaflokksins Life Goes On var að ljúka. Gleði og sorgir Thatcher fjölskyldunnar skilja landsmenn eftir í tárum. Næst á dagskrá Ríkissjónvarpsins er T-World: Tilraunaútsending. Á skjánum blasa við tveir félagar í lautartúr í Heiðimörkinni ásamt Steingrími Dúa Mássyni þáttargerðarmanni. Þeir félagar eru Magnús Guðmundsson (Herb Legowitz, Maggi Lego) og Birgir Þórarinnsson (Biggi Veira) og er báðir raftónlistarmenn. Líklegast var um að ræða fyrsta sjónvarpsþáttinn sem var helgaður íslenskri rafsveit. Fjölmargir þættir hafa verið gerðir um hinar og þessar hljómsveitir, en nú var um að ræða rafsveit og það á besta útsendingartíma. Fyrir hinn almenna sjónvarpsáhorfenda var þetta samt sem áður hápunktur kvöldsins þar sem dagskrá kvöldsins var ekki upp á marga fiska, en eftir útsendinga var einmitt breska heimildarmynd um líkamsúrgang og hvernig mætti nýta hann.

T-World var upprunalega skipuð Birgi Þórarinnsyni og Guðbergi Jónssyni. Sveitin var stofnuð árið 1988 og upphaflega sótti áhrif sín í Marc Almond (Soft Cell). Smám saman þróaðist hljóðheimur sveitarinnar í “tæknihipphopp”, eins og þeir sjálfir kölluðu það. Þeir áttu það til að taka coverlög á tónleikum, t.a.m. Field of Rape eftir Hilmar Örn Hilmarsson sem þeir settu í dansútgáfu.

Nafn sveitarinnar er skammstöfun á frasa úr laginu Never to be Next sem fyrrnefndur Marc Almond söng og kom út á sólóplötunni hans Jacques árið 1989. Þar kemur fram frasinn “All the followers of the world, Would hold each others hand”. T-World er semsagt stytting á frasanum The Followers of the World.

Fyrst var minnst á hljómsveitina T-World í Morgunblaðinu þann 19. júní 1992, en þá var dagskrá kvöldsins fyrir Listahátíðarinnar Loftárás á Seyðisfjörð kynnt. Viku síðar var sannkölluð Reif-veisla í Héðinshúsinu þar sem sveitin kom fram ásamt Soul Control, Mind in Motion, Pís of Keik og Ajax – en allt voru þetta vel þekktar sveitir í íslenskri reifsenunni á þessum árum. Þetta var greinilega sumar reifsins, þar sem þeir komu einnig fram á Eldborg á Kaldármelum um verslunarmannahelgina, en þar var sett upp svokallað “Reif-tjald”.

Árið eftir litu fyrstu útgáfur T-World dagsins ljós. Sveitin var með lög á safndiskunum Núll og Nix og Blávatn. Einnig kom út á safndisknum Trans Dans endurhljóðblöndun þeirra á laginu Heal Me með Bong, sem þá var skipuð Móheiði Júníusdóttir og Eyþóri Arnalds.

T-World átti í góðu samstarfni við aðra íslenska hljómsveit, Bubbleflies. Þeir spiluðu útgáfutónleikum þeirra og bresku sveitarinnar Freaky Realistic þann 22. október 1993. Fjölmargir erlendir blaðamenn komu til landsins fyrir þá tónleika, svo sem frá Melody Maker, NME og Select – með það í huga að gera íslensku tónlistarlífi góð skil. Á þeim tónleikum var sveitin orðin að tríói þar sem Magnús Guðmundsson var þá orðinn órjúfanlegur hluti sveitarinnar. Sveitin var þó ekki tríó lengi, þar sem Guðbergur yfirgaf sveitina fljótlega eftir það. Í gagnrýni eftir tónleikana var kvartað yfir því að liðsmenn sveitarinnar “bogruðu sér yfir græjurnar án sýnilegs áhuga. Tónlistin var samblanda af töktum og minimalískum rafhljóðum, mjög heppilegur hávaði fyrir fræðslumyndir um hvali. Einhver hafði á orði að þeir væru zen-búddísk hljómsveit; það þyrfti ótrúlega sjálfstjórn til að geta staðið fyrir framan rafmagnstæðurnar og gert ekki neitt”. Meðlimir sveitarinnar virðast hafa tekið orð þessi, sem líklega voru rituð af Gunnar Hjálmarssyni (Dr. Gunni), til sín og fljótlega fór að vinna meira með lifandi flutning.

Árið 1994 var í farveginum að gefa út endurhljóðblöndun á laginu Nótt með Greifunum. Ekki veit ég til þess að það hafi séð dagsins ljós – og óska ég hér með upplýsingum um það.

Safnskífan Egg ’94 var fyrsta alvöru metnaðarfulla raftónlistarsafnplatan – og átti T-World þar eitt lag. Lagið hét OH! og var naumhyggjukennt sveimhústónlist með afrískum áhrifum.

Árið 1994 var viðburðarríkt ár fyrir sveitina, en hún kom víða fram. Þeir komu fram á útihátíð í Húnaveri, ásamt Scope, Jet Black Joe, Bubbleflies og fleirum. Orðrómur var um að hljómsveitin The Prodigy myndi kom þar fram, en sveitin hafði afboðað sig skömmu áður. The Prodigy komu fram skömmu síðar í Kaplakrikanum, þann 24. september sama ár. T-World voru auglýstir sem upphitunarsveit, en svo virðist að sveitin hafi ekki borist tilboð frá skipuleggjendum og neituðu þeir því að taka þátt.

Skömmu áður, þann 19. júní 1994, voru stórtónleikar í Laugardalshöll. Þar komu fram Björk, Bubbleflies og breska danssveitin Underworld, sem þá voru á barmi heimsfrægðar. Einn af forsprökkum sveitarinnar, Darren Emerson, rambaði inn á skemmtistaðinn Venus og hreifst af hljómi sveitarinnar sem þar kom fram, en sú sveit var einmitt T-World. eftir það fóru hlutirnir að gerast hratt fyrir sig. T-World gerði samning við breska útgáfufyrirtækið Junior Boys Own, sama útgáfufyrirtæki og gaf út verk Underworld. Heildarhljómur T-World stangaðist á við hljóm útgáfunnar og var þá brugðið á það ráð að stofna nýja undirútgáfu sem yrði undir umsjón Darren Emerson. Útgáfufyrirtækið Underwater Records varð því að raunveruleika. Undir loks ársins kom svo út fyrsta afurðin á nýju útgáfunni og nefndist hún An-Them. Útgáfan fékk góðar viðtökur plötusnúða og var útgáfan t.a.m. endurútgefin árið 2005.

Árið 1995 kom sveitin fram á hinni alræmdu menningarhátíð Uxi ’95, en eitt afdrífaríkasta samstarf íslandssögunnar átti sér stað um svipað leyti: Daníel Ágúst Haraldsson og T-World. Þeir tóku saman höndum og sömdu tónlist fyrir stuttmyndina Nautn (Nr. 1) eftir Stefán Árna Þorgeirsson og Sigurð Kjartansson. Myndin var frumsýnd þann 17. nóvember í Sambíóunum á undan kvikmyndinni Mad Love. T-World og Daníel fengu í lið með sér Emilíönu Torrini, Magnús Jónsson úr Silfurtónum og Hafdísi Huld. Gefin var út breiðskífa undir nafninu Gus Gus og kom sú skífa út skömmu fyrir frumsýningu myndarinnar. Sú útgáfa náði eyrum forráðamanna bresku útgáfunnar 4AD, sem síðla árs 1996 gerðu samning við hinn nýstofnaða fjöllistahóp.

Í raun má segja að hljómsveitin T-World sé ennþá starfandi – en undir formerkjum Gus Gus. Árið 2000 kom út breiðskífan Gus Gus vs T-World, þar sem má finna endurtónjafnaðar útgáfur af lögum T-World.