Elektrónísk Stúdía

Sagan hefst á Skólavörðustígnum. Borgin er að koma undan vetri og sólin reynir að brjóta sér leið í gegnum skýin. Á kaffihúsinu Mokka situr eitt af okkar efnilegustu tónskáldum. Hann virkar órólegur. Ríkisútvarpið ómar yfir staðinn, líkt og oft áður. Það er ástæðan af hverju tónskáldið situr hér. Nýtt tónverk eftir hann mun von bráðar hljóma á flestum heimilum landsins og það vottar fyrir smá spenningi hjá hinum unga listamanni. Hin fagra útvarpsrödd kynnir verkið og skömmu síðar byrja fyrstu tónarnir að óma. Hann grípur í spenningi utan um kaffibolla sinn. Hinar fjölmörgu andvökunætur munu nú bera ávöxt. Sköpunin er nú ekki bundin við hann sjálfan, heldur orðin eign allra – allra sem hlusta á viðtækið þessa stundina. Skömmu eftir að verkið byrjar gengur þernan á staðnum í átt að viðtækinu og slekkur á því. Hún biðst afsökunar á því að svo virðist sem að viðtækið sé ónýtt. Raunin var sú að ekkert var að viðtækinu, heldur var um að ræða sjálft tónverkið – eitt af fyrstu rafverkunum sem var samið á Íslandi og tónskáldið var Magnús Blöndal Jóhannsson, nýútskrifaður í tónsmíðum frá hinum virta Julliard háskóla í Nýju Jórvík.

Magnús samdi Elektrónísk Stúdía árið 1958 fyrir tréblásturskvintett, píanó og segulbandstæki. Verkið var frumflutt í húsi Framsóknarflokksins þann 11. apríl tveimur árum seinna. Sá flutningur hefur yfirleitt verið sagður upphafspunktur íslenskrar raftónlistar. Tónleikarnir voru hluti af tónleikaröð nýstofnaðra samtaka ungra tónlistarmanna sem kölluðu sig Musica Nova. Tilgangur samtakanna var að gefa ungum tónskáldum svigrúm til að prufa nýja hluti og kynna jafnframt verk þeirra. Verk Magnúsar var án efa umtalaðasta verkið, enda líkt við rafræna atómbombu, þar sem fjölmargir tónleikagestir yfirgáfu svæðið með óþæginda suð í eyrunum.

Einu raftækin sem tónskáld höfðu til umráða á þessum tíma voru í eigu Ríkisútvarpsins. Þar var að finna Telefunken 5 og M10 segulbandstæki, ásamt nokkrum sínusbylgjuröfulum. Með tækjum í eigu ríkisútvarpsins gerði Magnús eitt af sínum frægustu verkum – Constellation (Samstirni). Um er að ræða elektróakústískt verk – þar sem koma við sögu sínústónar, pappahólkar, málmgjöll, taktmælir, suð og orgelhljóð.

Verkið Constellation barst til eyrna Karlheinz Stockhausen, sem á þessum tíma var leiðandi afl í tónlistarheiminum og hvatning fyrir alla unga framsækna tónlistarmenn. Stockhausen sá um útvarpsþætti í Westdeutscher Rundfunk í Kölnarborg sem hétu því forláta nafni Kennen Sie Musik, die man nur am Lautsprecher hören kann? – og verk Magnúsar fékk að hljóma þar.

Lengi vel gekk sá orðrómur að Stockhausen hafi haft verkið með sér í fyrirlestraferðum sínum um Evrópu og Bandaríkin og einnig leikið það í útvarpsþáttum um elektróniskamúsik, er hann hefur með hönd um í Köln, Bremen og Saarbrücken. Í bréfaskiptum Bjarka Sveinbjörnssonar og Karlheinz Stockhausen minnist sá síðarnefndi þó þess ekki að hafa haft verkið Constellation með sér í fyrirlestraferðum sínum um Evrópu og Bandaríkin.

Almennt viðhorf til raftónlistarinnar til að byrja með var afar neikvætt. Sumir töldu þetta var tískufyrirbrigði sem fljótlega yrði gleymt og grafið og ýmsir töldu að þetta væri allt í raun einn stór hrekkur – að það sé verið að hafa áhlustendur að fíflum. Þann 8. nóvember 1962 frumflutti Sinfóníuhljómsveit Íslands verkið Punktar eftir Magnús Blöndal Jóhannsson. Um er að ræða 14 mínútna verk með hinum ýmsum ásláttarhljóðfærum og rafrænum hljóðum, sem voru spilaðar af segulbandstæki. Í prógramminu sem tónleikagestir fengu í hendurnar fyrir tónleikana var ritað: Elektróník er beitt í nær helmingi tónsmíðarinnar. Auk hins venjulega krómatíska tónlftóna-stiga eru notaðir míkrótónar, nánar tiltekið kvart-tónar. Hljóðfall byggist á metrónómískri heildareiningu fjórðungsnótu, sem rúmast 60 sinnum á einni mínútu, en hún er leyst upp í mjög svo fjölbreytilegar undirskiptingar. Píanóið bætir inn sterkum, stríðum litum með þéttum tónklösum.[1] Hvort að hinn venjulegi tónleikagestur hafi skilið hvað hér er átt við skal látið ósagt. William Strickland, þáverandi stjórnandi Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem var að stjórna elektrónísku verki í fyrsta skipti var spurður af blaðamönnum hvað honum þætti um verkið. Honum fannst þetta skemmtilegt og áhugavert – en þurfti að ítreka það við blaðamenn að svar hans væri einlægt. Alls voru þrjú tónskáld með verk þetta kvöldið. Ásamt Magnúsi voru einnig verk eftir Þorkel Sigurbjörnsson og þýska tónskáldið Paul Hindesmith. Tónskáldin voru spurð af blaðamönnum hvort þeir óttuðust viðbrögð hljómleikagesta, en svarið stóð ekki á sér – þeir kærðu sig kollótta um viðbrögð þeirra.

Í samtali Magnúsar við Vísir árið 1964 talar tónskáldið um erfiðleika raftónlistar: „Mér finnst elektróníska tónlistin mæta miklu tómlæti hér á landi. Fólk segir, að hún sé engin músík, og það er jafnvel útbreidd skoðun, að verið sé að gera gys að almenningi með þessu. Auðvitað er hugsanlegt, að einhverjir séu að reyna það, en ég trúi ekki að heiðarlegum tónskáldum detti slíkt í hug. Það er ótrúlega erfitt að fá fólk til að viðurkenna elektrónísku músíkina sem alvarlegt listform.“[2]

BBC setti á laggirnar tónverksmiðju árið 1958. Henni var ætlað að framleiða (ó)hljóð og sem nota mætti í útvarpsleikrit og sjónvarpsþætti. Hún þjónaði einnig sem vettvangur fyrir tónskáld til að þróa hugmyndir sínar með aðstoð nýjustu tækni og tólum. Fjölmargir kannast við upphafstefið úr sjónvarpsþáttunum Dr. Who, en það er runnið úr rifjum verksmiðjunnar. Atli Heimir Sveinsson vildi að Ríkisútvarpið skoðaði þann möguleika að gera það sama hér á landi. „Fyrir þrjár milljónir mætti koma upp betra „stúdíói“ en er í Köln. Við það gætu svo bæði innlendir og erlendir tónlistarmenn starfað. Mjög mikili höngull er á þess háttar tónverkum og erlendar útvarpsstöðvar myndu rífast um að fá að flytja þau.“[3]

Magnús Blöndal Jóhannsson var fenginn til þess að semja tónlist fyrir heimildarmyndina Surtur fer sunnan, en hún fjallaði um Surtseyjargosið sem íbúar Vestmannaeyja urðu varir við klukkan 7:15 að morgni 14. nóvember árið 1963. Tónlistin var nefnd af tónskáldinu sjálfu sem elektrónískt-concretverk. Tónlistin var ekki framleidd af elektrónískum tóngjöfum, heldur flutt af hljóðfæraleikurum og leikin á algeng hljóðfæri. Í stað þess að notast við pappír og nótur, var spilað beint inn á segulband og upptökurnar meðhöndlaðar á rafrænan hátt. Heimildarmyndin, sem tekin var upp af Ósvaldi Knudsen, var frumsýnd þann 22. mars árið 1965 í kvöldvöku Ferðafélags Íslands í Sigtúni. Gagnrýnendur voru sammála um gæði tónlistarinnar og um að hún félli stórglæsilega að myndinni. Nú var staðan orðin þannig að almenningur hrifust að krafti hinna tveggja aðalleikara heimildarmyndarinnar: Surtsey og tónlist Magnúsar. Raftónlistin var nú ekki einungis áhugamál örfárra sérvitra tónlistaráhugamanna, heldur orðin viðurkennd á meðal almennings.


[3] Símaviðtal við Atla Heimi Sveinsson. „Elektrónísk stúdíó við Ríkisútvarpið“. Morgunblaðið. 7. Október 1962. Bls. 10.


[2] „Nýtízkulegt tónskáld“. Vísir. 16. apríl 1964. Bls. 9. 


[1] Bjarki Sveinbjörnsson. Tónlist á Íslandi á 20. öld. Með sérstakri áherslu á upphaf og þróun elektrónískrara tónlistar á árunum 1960-1990. Ph.D. ritgerð í tónvísindum við Álaborgarháskóla 1997. Bls. 216.